Nútíma listdansbraut

Nútímalistdansbraut er þriggja ára dansnám á menntaskólastigi sem veitir metnaðarfulla og góða þjálfun til að undirbúa nemendur til frekara náms í háskóla bæði á Íslandi sem og erlendis.

Á þessum þremur árum læra nemendur fjölbreytta hluti með það að markmiði að þjálfa þá áleiðis til þess að verða danslistamenn og byggja þeim góðan grunn fyrir frekara nám og vinnu á sviði dansins.  Nemendur þjálfa stíft mismunandi nútímadanstækni byggðar á Martha Graham, José Limón og Merce Cunningham ásamt því að fá að spreyta sig reglulega á sviði í verkum sem annaðhvort eru sköpuð sérstaklega fyrir nemendur eða þeim kennd þekkt verk. Nemendur fá einnig þjálfun í því að skapa sín eigin verk undir leiðsögn starfandi danshöfunda og öðlast þar með góðan grunn til að hefja frekara nám sem danshöfundur eða danslistamenn.

Að loknu þriggja ára námi við nútímalistdansbrautina hafa nemdendur öðlast víðan og styrkan grunn sem fleytir þeim til frekara náms á sviði danslista og er upphafið að starfsferli á því sviði eins og atvinnu nútímadansari, danshöfundur, danskennari, dansgagnrýnandi, dansfræðingur, dansvísindamaður, dans meðferðafulltrúi, danshreystiþjálfari eða dansverkefnastjóri. Gert er ráð fyrir að nemendur hafi náð 16 ára aldri til að komast inn á brautina og geta nemendur valið brautina í samráði við framhaldsskólann sem þeir stunda nám við. Nemendur stunda þar kjörsviðið (nútímalistdansbraut) við Klassíska Listdansskólann en grunnfögin eins og íslensku, stærðfræði, ensku, dönsku og önnur fög við viðeigandi framhaldsskóla. Hafa ber í huga að þar sem tímasókn er stundum á morgnanna og í hádeginu getur verið einfaldara að stunda grunnnámið við framhaldsskóla með fjölbrautakerfi heldur en bekkjarkerfi.

Allir áfangar eru kenndir af danslistamönnum sem vinna á alþjóðagrundvelli og eiga það sameiginlegt að hafa góða menntun og mikla kunnáttu á bak við sig.

Áfangar

  • Nútímadans
  • Klassískur ballett
  • Danssmíði
  • Spuni
  • Listdanssaga
  • Skapandi dansverk

Kennarar

Yannier Jökull Oviedo Rivas

Er fæddur og uppalinn í Matanzas á Kúbu. Hann byrjaði að dansa átta ára gamall og vann til ýmissa verðlauna, meðal annars silfur og gullverðlauna í International Ballet Competition í Havana. Yannier útskrifaðist sem atvinnudansari og balletkennari frá ENA Háskólanum í Havana og var hann í framhaldi ráðinn sem dansari í Ballet de Camaguey. Árið 2011 var hann valinn úr stórum hóp dansara til Ballet Revolucion og dansaði hann með þeim um allan heim. Yannier flutti til Íslands árið 2013 og hefur hann kennt ballet í nokkrum skólum á landinu, dansað í Borgarleikhúsinu og með Sínfóníuhljómsveit Íslands.

Þorbjörg Jónasdóttir

Er uppalin í Reykjavík og byrjaði að dansa um fjögurra ára aldur. Hún flutti út til Bandarikjanna 15 ára gömul til að stunda nám við San Francisco Ballet School. Eftir að hún sneri aftur heim til Íslands tók hún þátt í skemmtilegum verkefnum tengdum dansi eins og t.d. Söngvakeppninni og Ballet axis. Þorbjörg eyddi sumrum sínum á námskeiðum hjá ýmsum skólum erlendis, líkt og The Royal Ballet School, Boston Ballet, San Francisco Ballet School og The Paris Opera Ballet School.